top of page

Iyengar (hatha) jóga

 

Hvaðan kemur Iyengar jóga?

 

Iyengar jóga er nefnt eftir hinum mikla jógameistara BKS Iyengar. Innan jógaheimsins er hann ef til vill best þekktur fyrir að hafa skrifað bókina “Light on Yoga” en hún er notuð í velflestu jógakennaranámi um heim allan og er oft kölluð biblía jógans.

 

Iyengar hóf jógaiðkun aðeins 15 ára gamall, iðkaði það og kenndi til dauðadags árið 2014 þá 96 ára gamall.  Árið 2004 var hann nefndur sem einn af 100 áhrifamestu manneskjum heims í Time tímaritinu. Til gamans má geta að hann er eini jóginn sem hefur hlotið þann heiður að hafa verið teiknaður inn í stiku google leitarvélarinnar, að sjálfsögðu að gera jóga!  https://www.youtube.com/watch?v=ZApv2zr6bH4

 

Á þeim 75 árum sem hann kenndi jóga lagði Iyengar nótt við dag að bæta aðferðafræði og aðkomu að jógastöðum sem og kennslufræði sína og úr varð hið merka kerfi sem Iyengar jóga er.

 

Fyrir hverja er Iyengar jóga?

 

Iyengar jóga hentar öllum óháð aldri, kyni eða heilsu.  Við keppum ekki í Iyengar jóga og engin mun bera þig saman við aðra nemendur.  Eitt af séreinkennum Iyengar jóga er notkun propsa (kubbar, belti, bólstar, teppi) sem hjálpa nemandanum að auka styrk, sveigjanleika og stöðugleika í stöðunum sem gerir nemandanum kleift að hafa meira vald yfir stöðunni.  Þannig getur nemandinn unnið með sitt besta í blönduðum hópi nemenda.  Kennarinn og aðstoðarkennari hjálpar nemandanum að finna réttu propsin fyrir hverja stöðu en rétt er að taka fram að Iyengar sagði alltaf að fyrsta verkfærið væri alltaflíkaminn sjálfur og þannig notum við önnur props þar til við þurfum þau ekki lengur.

Í Iyengar jógatíma eru 10-20 nemendur með kennara og oft aðstoðarkennara.  Tímarnir eru 75 eða 90 mínútna langir.  Kennari skapar umhverfi þar sem nemendur eru öruggir og vinna markvisst á eigin hraða.

 

Um Iyengar jóga

 

Standandi stöður eru það fyrsta sem kennt er í Iyengar jóga en þær byggja kraft og færni í hreyfingum, auka lífsorku, blóðflæði, samhæfingu og jafnvægi og eru sterkur grunnur fyrir það sem á eftir kemur.

 

Með reglulegri iðkun eflum við styrk, úthald og rétta líkamsbeitingu auk þess sem við vinnum með aukinn sveigjanleika og slökun.  Iðkunin eykur líkamsvitund og leiðir okkur inn á við.  Áhersla á nákvæmni eykur öryggi hjá nemenda, nákvæmni gefur stöðugleika sem færir nemandann dýpra inn í stöðuna og gerir jógaiðkun að eins konar hugleiðslu.

 

Í tímum er lögð áhersla á að læra, ekki bara að gera. Kennari sýnir stöðuna fyrst, þá gera nemendur og kennari leiðréttir en alvanalegt er að kennari sýni stöðuna eða hluta af stöðunni aftur til frekari skýringar og lærdóms.

Stöður til djúprar slökunar eru kenndar frá upphafi.  Því næst eru sitjandi stöður, frambeygjur, stöður á hvolfi, bakbeygjur og sveigjur kynntar inn koll af kolli.

Í Iyengar jóga er lögð áhersla á jafnan og stöðugan framgang frekar en að þvinga líkamann áfram.  Því eru nemendur hvattir til að vinna á eigin hraða jafnvel þó þeir séu í hóptíma.  Ákveðin tímabil í hverjum mánuði eru tekin til að kenna einn “hóp” af stöðum - standandi stöður, frambeygjur, bakbeygjur og restorative stöður (sem leiða inn í öndunaræfingar).  Þannig öðlast nemandinn góðan grunn sem hann eða hún getur byggt eigin iðkun á. Engir tveir tímar eru eins þar sem kennarinn setur saman stöður og aðkomu að stöðum fyrir hvern tíma og blæbrigði tímans litast alltaf af færni og dagsformi nemendanna.  

Nemendur fá gjarnan tillögu að æfingum til að gera heima, en heimaiðkun eykur áhrifin af kennslu í tímum.

 

Rík áhersla er lögð á að gera stöðurnar á réttan hátt.  Af hverju er það mikilvægt?

 

Við temjum okkur að teygja þar sem við erum hvað sveigjanlegust og notum þá vöðva sem eru sterkastir til að vinna og þannig viðhöldum við líkamsstöðu okkar. Stundum er hún góð en oft á tíðum brengluð. Með áherslu á að gera stöðurnar rétt styrkjum við veik svæði líkamans og stíf svæði ná að slaka, þannig breytum við allri líkamsbeitingu til hins betra.

 

Þegar við leiðréttum stöðu líkamans á þennan hátt og viðhöldum henni, minnka verkir og líkamsstaða batnar.  Þegar við beitum líkamanum rétt þurfum við að nota minni vöðvakraft og þá eykst náttúruleg slökun í líkama af sjálfu sér.


Jógakennarar í Ljósheimum

 

Alda, Pálmi, Sólbjört og Unnur hafa öll lært hjá Francois Raoult sem var nemendi BKS Iyengar í áratugi.  Francois kennir jóga á grunni Iyengar en hefur tekið inn efni frá Judith Lasater (restorative jóga), Thomas Myers (Anatomy Trains), Noelle Perez (d´Aplomb)  og fleirum.  

 

Þannig kennum við jóga á traustum grunni Iyengar jóga. Það er okkur einstök ánægja að hefja kennslu á þessu eðal jóga í fyrsta skipti á Íslandi.

bottom of page