top of page

Hvað leiddi þig í jóga?
Ég hef starfað við hóptímakennslu frá árinu 1999 þar sem mikill hraði og öfgar voru gjarnan alls ráðandi. Á þessum tíma flaug það oft í gengum hugann á mér að fara í jógakennaranám en alltaf leiddi ég það hjá mér því ég hélt ég væri of ofvirk til að stunda jóga. Ég hafði prófað alls konar jóga og mér fannst það andlega erfitt og átti erfitt með að kyrra hugann. Árið 2008 var ég ólétt af mínu öðru barni og fór í meðgöngujóga. Í framhaldinu af því fór ég í kundalini jógakennaranám og má eiginlega segja að það hafi verið ást við fyrstu sýn og tilfinningin að ég væri komin heim. Kundalini jóga er kraftmikið og það hjálpaði mér á svo margan hátt að ná betri tökum á lífi mínu. Þetta var þó einungis upphafið af því ferðalagi sem ég er á og er þó enn rétt að byrja. Ég hef meðal annars bætt við mig kennsluréttindum í aerial yoga og var í fyrsta hópnum sem lærði hjá Francois Raoult í Ljósheimum.
Hvað gefur jógaiðkun þér?
Ég hef kynnst sjálfri mér og er búin að uppgötva að ég er stórkostleg manneskja. Ég hef hugrekki til að vera ég sjálf og hlusta á það sem kemur til mín og gera það sem mér er ætlað í lífinu. Ég er meira til staðar dags daglega, hef meiri meðvitund um hvað er að gerast í líkama mínum og lífi mínu og nýt hvers augnabliks betur. Það þarf miklu meira til að koma mér úr jafnvægi og ég tekst á við hlutina með meira jafnaðargeði og stakri ró. Einnig hefur jóga fært mér betri líkamsvitund og heilbrigðari líkama þar sem liðleiki og styrkur er í jafnvægi.
Af hverju kennir þú jóga?
Ég hef alltaf vitað að mitt hlutverk í lífinu er að kenna en þrátt fyrir að ég inni við að kenna áður en jóga kom inn í líf mitt, var ég leitandi og leið eins og ég væri ekki á réttri hillu. Fyrir mér er þetta mjög einfalt og er ástríða mín í lífinu að gefa öðrum tækifæri á að upplifa það sem ég upplifði. Að þú getir fundið þinn eigin verðleika og ástríðu í lífinu og að þú getir orðið besta útgáfan af þér.
Hvað gerir þú annað í lífinu?
Sat Nam Rasayan heilun og einkatímar í jóga. Ég á eiginmann og með honum 2 börn. Þegar ég er ekki að kenna jóga, lesa um jóga eða hugsa um jóga er ég gjarnan að njóta samverstundanna með litlu fjölskyldunni minni. Ég hef mikla hreyfiþörf og fyrir utan jóga stunda ég hjólreiðar og hreyfiþjálfun. Sköpunargleðina fæ ég svo útrás fyrir með því að prjóna.
bottom of page