Sólbjört Guðmundsdóttir
Hvað leiddi þig í jóga?
Ég var í ísleiðangri með ungum vini mínum þegar mér er litið á auglýsingavegginn í ísbúðinni. Þar var plakat sem hreinlega “stökk” á mig en á því var auglýst jóganám í kundalini jóga. Einhvern vegin var þar með ekki aftur snúið, ég fór í námið og elskaði kundalini jóga frá fyrsta degi. Að námi loknu var það ljóst að ég væri rétt að byrja að læra. Næstu ár lá leið í framhaldsnám í jóga, í jógaþerapíu og meðgöngujóga, allt tengt kundalini hefðinni.
Því meira sem ég læri því betur sé ég hvað ég veit raunverulega lítið og því hélt ég áfram að læra, næst 1. og 2. stig í kennaranámi í Restorative jóga hjá Judith Hanson Lasater og þar opnaðist enn önnur vídd fyrir mér, að gefa eftir inn í hvíld! Þvílík dásemd! Restorative jóga kemur úr hefð Iyengar jóga og forsjónin færði okkur í Ljósheimum einn af efri stigs nemendum hins mikla jógameistara BKS Iyengar, Francois Raoult, og úr varð að nú bjóðum við upp á kennaranám í jógasal Ljósheima með Francois, byggt á tryggum grunni Iyengar jóga. Þannig heldur hið endalausa jógaferðalag áfram :)
Hvað gefur jógaiðkun þér?
Þegar ég iðka jóga bý ég til rými í líkamanum og rými í huganum. Þegar ég iðka jóga mæti ég mér nákvæmlega eins og ég er og sé sjálfa mig skýrt, hið góða og það sem betur má fara. Jóga færir mér gleði, fókus og birtu.
Af hverju kennir þú jóga?
Frá því ég er lítil stelpa hefur mér alltaf verið sagt að ég sé fæddur kennari. Það sem ég hef ástríðu fyrir vil ég að aðrir fái líka að njóta og það geri ég í gegnum kennslu. Í kundalini jóga býr eldur og dýpt sálarinnar, í restorative jóga viska í hvíld og í Iyengar jóga styrkur, fókus og nákvæmni. Þessu reyni ég að miðla til þeirra sem koma í tíma í jógasal Ljósheima.
Hvað gerir þú annað í lífinu?
Ég stofnaði Ljósheima fyrir 18 árum og þar er minn starfsvettvangur. Þannig blandast vinna og ástríða saman á hverjum degi.
Móttó lífs þíns eða uppáhalds tilvitnun?
“You are the sky. Everything else – it’s just the weather.” ― Pema Chödrön